Skilningsleysi afhjúpað

Þegar ég var að velta því fyrir mér um hvað ég ætti að skrifa fyrsta pistilinn á þessa vefsíðu birtist grein eftir Kára Stefánsson í Fréttablaðinu sem ég taldi rétt að svara. Tilefni greinar Kára er að ég var formaður starfshóps forsætisráðherra sem samdi frumvarp að lögum um vandaða starfshætti i vísindum (https://www.althingi.is/altext/stjt/2019.070.html). Svargrein mín birtist í Fréttablaðinu í dag (14.11.19) og er svohljóðandi:

Það er full ástæða til að þakka Kára Stefánssyni fyrir grein sem hann skrifaði Fréttablaðið 7. nóv. undir yfirskriftinni „Kannski það sé í lagi þegar maðurinn sem hefur forsætisráðherra að fífli er siðfræðingur”. Bæði er að greinin gefur mér kærkomið tilefni til að skýra þá lagasetningu sem um ræðir og svo afhjúpar hún svo skýrt skilningsleysi á málefninu að það sannfærir mig enn betur en áður um mikilvægi laganna. Í greininni er lýst mikilli furðu á því að í lögunum sé ekki skilgreint hvað séu vönduð vísindaleg vinnubrögð. Það er reyndar með ráðum gert og fyrir því eru tvær meginástæður. Önnur er að vísindamenn viti almennt fullvel hvað séu vönduð vinnubrögð og átti sig á því hvað séu óvandaðir og óheiðarlegir starfshættir sem hindra sannleiksleit í vísindum. Það er því sérstakt áhyggjuefni að fram kemur í greininni að viðmælendur Kára úr vísindasamfélaginu hafi ekki hugmynd um þetta atriði. Hin ástæðan fyrir að skilgreina ekki „vandaða starfshætti“ eða öllu heldur andstæður þeirra er að þegar slíkar skilgreiningar eru settar í lög þá býður það heim því sem kalla mætti „lagavæðingu“ siðferðilegra viðmiða. Reynslan hefur sýnt að það kemur oft í veg fyrir að hægt sé að taka af siðferðilegum og faglegum myndugleika á málum af þessu tagi. Lögmenn hengja sig gjarnan í skilgreiningar í lagatextum og reyna með hártogunum og undanbrögðum að verja skjólstæðinga sína, þótt við vísindasamfélaginu blasi að um ámælisverða hegðun sé að ræða. 

Í lögunum er kveðið á um að „viðurkennd siðferðisviðmið í rannsóknum og skilgreiningar á brotum gegn þeim“ verði skráð og birt (6. gr.). Hér er líka saga að baki sem Kári á að þekkja. Fyrir nokkrum árum beitti Vísinda- og tækniráð sér fyrir því að mótuð væru „Viðmið um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum“. Fulltrúar úr vísindasamfélaginu, þ. á m. Íslenskri erfðagreiningu, unnu þessi viðmið og leituðu vitaskuld fyrirmynda úr alþjóðasamfélaginu. Andstætt því sem Kári segir eru slík alþjóðleg viðmið til og umræða um heiðarleika í vísindum (e. research integrity) hefur verið mikil á undanförnum árum. Og ekki að ástæðulausu, því að misferli og óheiðarleiki í vísindum er því miður furðu útbreitt og hvötunum til þessa virðist fara fjölgandi. Það er því áhyggjuefni að forstjóri stærsta rannsóknafyrirtækis Íslands standi á gati þegar þetta málefni ber á góma.

Eitt meginstefið í alþjóðlegri umræðu um þetta efni er að mikilvægasta úrræðið sé að bæta menntun vísindamanna sem efli skilning þeirra á því að gott siðferði sé óaðskiljanlegur hluti af vönduðu vísindastarfi. Þetta er talin árangursríkari nálgun en refsileiðin sem Kári kallar eftir þar sem megináhersla er lögð á viðurlög við brotum. Þarna leggur nefndin sem samdi lagafrumvarpið aftur traust sitt á vísindasamfélagið. Þar sé að finna skilning á heiðarlegum starfsháttum og að þar verði hægt að móta leiðir til að takast á við misferli og óheiðarleika. Andinn í lögunum er því að vísindasamfélagið ástundi sjálft eftirlit með góðum starfsháttum og miðlæga nefndin, sem að stærstum hluta verður skipuð fólki úr rannsóknarsamfélaginu, hafi einkum eftirlit með því að þetta sjálfseftirlit virki. Til hennar má síðan vísa málum sem ekki verða leyst með viðunandi hætti á vettvangi. Lögunum er því einkum ætlað að móta ramma um þessa málsmeðferð sem og að standa fyrir ráðgjöf og fræðslu eða eins og segir í lögunum (6. gr.): „Hlutverk nefndar er að upplýsa stjórnvöld, almenning og vísindasamfélagið um vandaða starfshætti í vísindum og um vísindasiðfræði og hafa eftirlit með því að siðferðileg viðmið séu í heiðri höfði í vísindasamfélaginu.”

Miðað við grein Kára í Fréttablaðinu er ekki vanþörf á þeirri upplýsingu sem hér er kveðið á um. Í orðum hans felst að hugmyndir um gott vísindasiðferði hamli vísindalegri framþróun. Lög um vönduð vinnubrögð í vísindum ganga hins vegar út frá þeim skilningi að þetta tvennt verði ekki sundur skilið. Ég held að sá skilningur sé raunar útbreiddur í vísindasamfélaginu og að skilningsleysi Kára sé sjaldgæf undantekning.