Álit á siðleysi

Það var hringt í mig frá RÚV á fimmtudaginn var (14. nóv.), tveimur dögum eftir hinn skelfilega Kveik-þátt um framferði Samherjamanna í Namibíu. Leitað var eftir áliti mínu sem siðfræðings. Mín fyrstu viðbrögð voru að segja að mér fyndist það vera móðgun við almenning að setja fram sérfræðiálit á máli þar sem siðleysið liggi í augum uppi. Þá sagðist fréttakonan leita til mín vegna þess að ég hefði leitt starf hópsins sem skrifaði skýrslu um siðferði og starfshætti í tengslum við störf rannsóknanefndar Alþingis á bankahruninu. Hvort ég sæi einhver líkindi með framferði bankamannanna þá og Samherjamanna nú. Ég svaraði þessu í örstuttu máli: Líkist bankahrunsskýrslunni, segir siðfræðiprófessor

Ég var stuttorður vegna þess að þótt um sé að ræða alvarlegt siðferðismál þá eru þar engin sýnileg álitamál fyrir siðfræðing til að velta fyrir sér. Öðru nær: framferðið er ekki einungis augljóslega rangt heldur einstaklega lúalegt. Hér er skipulega níðst á þeim sem eru minnimáttar, bláfátækri þjóð sem er varnarlaus gagnvart arðráni því að stjórnmálamenn og embættismenn, sem gæta eiga almannahagsmuna, eru gjörspilltir. Þess vegna lagði ég áherslu á það í svari mínu að þetta væri hin sorglega sérstaða þessa máls í samanburði við framferði bankamannanna.

Útrásarvíkingarnir í fjármálaævintýrinu leituðu á mið þeirra sem áttu peninga og grófu með áhættusamri hegðun sinni undan stoðum íslensks samfélags. Stjórnmálamenn höfðu gefið þeim lausan tauminn, beðið eftirlitsstofnanir að gæta hófs og fjölmiðlarnir drógu gjarnan upp glansmynd af atburðarásinni, enda flestir í eigu viðskiptablokkanna. Spilling hérlendis birtist ekki í mútum heldur í nánum tengslum viðskiptalífs og stjórnmála og því að fjármálasamsteypurnar réðu lögum og lofum í samfélaginu og ráða sumpart enn. Öflug útvegsfyrirtæki hafa alltént tögl og hagldir í sumum byggðarlögum og eiga greiðan aðgang að stjórnkerfinu.

Öndvert við útrásarvíkingana leituðu Samherjamenn á mið hinna fátæku og báru, samkvæmt Kveiks-þættinum, fé á þá sem voru í aðstöðu til veita þeim aðgang að gjöfulum fiskimiðum. Þeir gengu inn í aðstæður þar sem farsælt þróunarstarf Íslendinga hafði búið í haginn fyrir traust sem þessir kvótagreifar misnotuðu svo herfilega sem raun ber vitni. Og ágóðann fólu þeir í aflandsfélögum og skattaskjólum. Hversu lágt er hægt að leggjast? Hér þarf enga siðfræðilega greiningu heldur orðfæri til að búa sorg sinni og reiði hæfilegan búning. En siðfræðingar geta vitaskuld lagt sitt af mörkum í umræðu um hvernig bregðast skal við svona máli.

Öllu réttsýnu fólki er misboðið og engum nema þeim sem eru blindaðir af eiginhagmunum eða pólitískri hugmyndafræði kemur í hug að verja þetta framferði eða tala af vandlætingu um „fjölmiðlastorm“. Greining Kveiks er sennilega eitt besta dæmið um hvað við kunnum að hafa lært af fjármálahruninu. Árvekni fjölmiðla er allt önnur en fyrir hrun og þótt það sé sárt að verða vitni að afhjúpun alvarlegra hneykslismála þá er það fagnaðarefni að öflugir fjölmiðlamenn skuli fylgja málum eftir og upplýsa þau af festu og einurð. Nú reynir á aðrar meginstoðir samfélagsins að bregðast við þessu máli af myndugleik.