Reglur og dómgreind

Í kjölfar þess að ferðamálaráðherra birti myndir af sér í gleðskap með vinkonum sínum snerist umræðan einkum um það hvort ráðherra hefði brotið reglur. Bæði var spurt hvort hún hefði brotið tveggja metra regluna og hvort hún hefði brotið siðareglur ráðherra. Mér fannst þetta ekki gagnleg nálgun og pistillinn hér á eftir fjallar um það. Í Kjarnanum (20. ágúst 2020), var pistillinn rammaður þannig inn með myndefni að nærtækt var að álykta að hér væri einkum á ferð gagnrýni á ráðherra. En sú gagnrýni er ekki meginatriði í málflutningi mínum heldur sú ríkjandi tilhneiging að umfjöllun um framferði stjórnmálamanna snúist um spurninguna hvort það fari í bága við lög og reglur. Með því að einblína á reglur missum við sjónar á öðrum mikilvægum þáttum siðferðis, svo sem ábyrgð, skilning á hlutverki og dómgreind. Ég byrja pistillinn á tilvitnun í fræga grein eftir Immanuel Kant, „Svar við spurningunni: Hvað er upplýsing?“ sem birtist í íslenskri þýðingu Elnu K. Jónsdóttur og Önnu Þorsteinsdóttur, í Skírni (haust 1993), 379–389:

„Reglur og fyrirmæli, þessi vélrænu verkfæri til skynsamlegrar notkunar eða öllu heldur misnotkunar þeirra hæfileika sem maðurinn fékk í vöggugjöf, eru fótfjötrar ævarandi ósjálfræðis.“

Þetta skrifaði þýski heimspekingurinn Immanuel Kant í svari við spurningunni „Hvað er upplýsing?“ árið 1784. Sá mannlegi hæfileiki sem Kant vísar til er sjálft brjóstvitið og svar hans við spurningunni var í hnotskurn „hafðu hugrekki til að nota eigið hyggjuvit“. Þessi brýning Kants er áleitin þessa dagana þegar við ræðum tveggja metra regluna. Hvers konar regla er hún eiginlega og hvernig tengist hún dómgreind borgaranna?

Í kjölfar þess að myndir birtust af ferðamálaráðherra í þéttum vinkvennahópi hefur athyglisverður greinarmunur komið fram í umræðunni. Tveggja metra reglan (eða eins metra reglan í vissum tilvikum) felur annars vegar í sér afdráttarlaus fyrirmæli til stjórnenda fyrirtækja og stofnana og hins vegar hvatningu til almennra borgara. Í báðum tilvikum krefst útfærslan dómgreindar og útsjónarsemi en með ólíkum hætti. Í fyrra tilvikinu er stjórnendum látið það eftir að útfæra nákvæmlega hvernig þessi fjarlægð milli starfsfólks, viðskiptavina eða nemenda, eftir atvikum, er gerð möguleg í tilteknu rými. Í síðara tilvikinu er höfðað til hyggjuvits einstaklinga um það hvernig við högum umgengni okkar við annað fólk við margbreytilegar aðstæður. Í báðum tilvikum er útfærslan prófsteinn á það hvernig við öxlum þá borgaralegu ábyrgð að vera öll almannavarnir.

En munurinn á ábyrgð stjórnenda og almennings birtist líka skýrt í því hvernig stjórnvöld fylgja reglunni eftir. Lögregla sinnir eftirliti með rekstraraðilum og gerir athugasemdir ef fyrirmælum er ekki framfylgt með fullnægjandi hætti, en slíkt eftirlit með framferði einstaklinga samrýmist ekki hugmyndum okkar um frjálslynt samfélag. Við getum þurft að þola athugasemdir samborgara okkar ef við hættum okkur of nærri þeim, en ekki afskipti lögreglu. Og hegðun okkar getur verið ámælisverð þótt hún feli ekki í sér brot á reglum.

Í þessu tilliti hafa opinberar persónur ákveðna sérstöðu. Þau sem gegna trúnaðarstörfum fyrir samfélagið hafa skyldur sem ráðast af hlutverki þeirra sem almannaþjónar. Framferði þeirra er því jafnan metið eftir því hvort það beri vott um skilning á þessu hlutverki eða ekki. Það er ekki alltaf gagnlegt að setja þetta fram í formi þess hvort reglur séu brotnar eða ekki. Því hefur verið haldið fram að ferðamálaráðherra hafi hvorki brotið tveggja metra regluna né siðareglur ráðherra, en það breytir því ekki að hún sýndi mikið dómgreindarleysi með umræddu framferði sínu.

Veiran setur okkur í margvíslegan vanda sem varðar m.a. það hvernig við umgöngumst hvert annað. Það er flókinn samskiptaveruleiki sem aldrei verður njörvaður nákvæmlega niður í opinberu regluverki. Það er skiljanlegt að rekstaraðilar kalli eftir skýrum fyrirmælum um það hvernig þeir geti hagað starfsemi sinni og jafnframt er æskilegt að almenningur fái gagnlegar leiðbeiningar um áhrifaríkar sóttvarnir. En einstaklingar þurfa eftir sem áður að nota eigið hyggjuvit til að meta breytni sína í ljósi slíkra viðmiða, útfrá aðstæðum, hlutverkum og af tillitsemi við náungann. Þannig fer það saman að hlýða Víði og fylgja sinni eigin dómgreind.