Viðurkenning Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til rannsókna (2017)

Í viðurkenningarorðum segir meðal annars:

„Vilhjálmur á að baki glæsilegan rannsóknaferil og hefur um árabil verið einhver afkastamesti rannsakandi á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hann hefur verið leiðandi rödd í alþjóðlegum vísindaheimi á sviði siðfræði, ekki síst lífsiðfræði þar sem hann hefur verið í fremstu röð meðal evrópskra fræðimanna í áraraðir. Vilhjálmur hefur einnig verið virkur í rannsóknum á lýðræði og hefur þar fléttað saman athuganir á íslensku samfélagi og alþjóðlegt sjónarhorn.

Árangur Vilhjálms endurspeglast í fjölda ritverka sem hann hefur birt á vettvangi þar sem gerðar eru ýtrustu kröfur til gæða, í innlendum og alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem hann hefur tekið þátt í og í þeim fjölda styrkja sem hann hefur aflað hérlendis og erlendis.

Vilhjálmur hefur ævinlega lagt áherslu á að miðla rannsóknum sínum til almennings og að efla fræðilega umræðu um heimspeki á Íslandi með því að birta rannsóknir sínar á íslensku í greinum og bókum.

Þá hefur Vilhjálmur tekið virkan þátt í íslenskri samfélagsumræðu og þannig leitast við að nýta í almannaþágu þekkingu sína á siðfræði, stjórnmálaheimspeki og öðrum sviðum heimspekinnar. Veigamesta framlag hans í þá veru er starf hans í rannsóknanefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Er þar fjallað af yfirvegun og hlutlægni um pólitískt viðkvæm viðfangsefni.“