Hugleiðing um bólusetningar í heimsfaraldri

Bólu­setn­ingar hafa skilað gríð­ar­legum ávinn­ingi fyrir lýð­heilsu í heim­in­um. Þær fela almennt í sér litla áhættu og efa­semdir um gildi þeirra byggja oft­ast á rang­færslum og mis­skiln­ingi. Hér­lendis hefur þátt­taka í bólu­setn­ingum við alvar­legum sjúk­dómum á borð við misl­inga, kíg­hósta, barna­veiki og stíf­krampa verið nægi­lega mikil til að halda þeim í skefj­um. Það er því skilj­an­legt að slíkar bólu­setn­ingar hafi orðið „norm“ í heil­brigð­is­þjón­ustu og ung­barna­eft­ir­liti. Segja má að þetta fyr­ir­komu­lag feli í sér eins konar „ýtni“ (e. nudging) sem er rétt­læt­an­leg vegna þess hve örugg og virk heilsu­vernd slíkar bólu­setn­ingar eru. Þá er ein­fald­lega gert ráð fyrir sam­þykki ein­stak­linga, eða for­eldra þegar börn eiga í hlut, en ákvörðun þeirra virt í þeim und­an­tekn­ing­ar­til­vikum þegar vel­gjörðin er afþökk­uð. Það er athygl­is­vert að þau sem afþakka bólu­setn­ingar fyrir börnin sín eru oft fólk með til­tölulega hátt mennt­un­ar­stig sem hefur lesið sér meira til um efnið en ger­ist og geng­ur. Ein ástæðan er sú að efa­semd­ar­fólk sem leitar upp­lýs­inga er lík­legt til að rekast á mikið magn áróð­urs gegn bólu­setn­ingum sem oft er settur fram í vís­inda­legum bún­ingi. Upp­lýs­inga­óreiðan í netheimum og berg­máls­hellar sam­skipta­miðla kynda síðan undir og hindra að fólk fylgi lög­málum gagn­rýn­innar hugs­unar í gagn­rýni sinni. Bólu­setn­ingar liggja vel við höggi, meðal ann­ars vegna tengsla við lyfja­iðn­að­inn sem er auð­velt skot­mark.

Bólu­setn­ingar við kór­ónu­veirunni hafa sann­ar­lega ekki farið var­hluta af slíkri gagn­rýni og sam­sær­is­kenn­ingar um hana hafa lík­lega náð áður ómældum hæð­um. Það er fjarri mér að taka undir slíkt, en mér finnst skilj­an­legt að bólu­setn­ing sem við­leitni til að stemma stigu við heims­far­aldri mæti meiri efa­semdum en við­ur­kenndar og þaul­reyndar bólu­setn­ingar gegn alvar­legum sjúk­dómum á borð við þá sem ég nefndi að ofan. Allt hefur gerst mjög hratt, far­ald­ur­inn er á ferð og er stöð­ugum breyt­ingum und­ir­orp­inn. Þrátt fyrir mjög hátt bólu­setn­ing­ar­hlut­fall (yfir 90% 12 ára og eldri hér­lend­is) erum við ekki laus undan far­aldr­inum og búum enn við miklar tak­mark­an­ir. Fólk fær traust­vekj­andi töl­fræði um óveru­legar auka­verk­an­ir, en það skipt­ist á sögum úr raun­heimum sem vekja efa­semd­ir. Auk þess blasir það við af fréttum að bólu­settir veikj­ast en margir óbólu­settir veikj­ast ekki. Margir eru taldir hafa smit­ast án þess að vita af því! Af þessu má sjá að almenn rök fyrir bólu­setn­ingum sem ára­tuga reynsla er af verða ekki fyr­ir­vara­laust yfir­færð á bólu­setn­ingar við Covid-19.

Samt sem áður er skilj­an­legt að sú hugsun sé áleitin að fólki beri skylda til að láta bólu­setja sig í við­leitni til að takast á við þennan vágest. Þótt bólu­setn­ing við Covid-19 hafi ekki skilað þeim árangri sem von­ast var eftir hefur hún átt stóran þátt í því að draga úr alvar­legum veik­indum margra sem hafa smit­ast og þar með komið í veg fyrir að sjúkra­húsin hafi þurft að sinna þeim. Mikið hefur verið höfðað til sam­stöðu okkar og spyrja má hvort það sé ekki sjálf­sagður liður í henni að láta bólu­setja sig. Sjálfur hef ég svarað þeirri spurn­ingu ját­andi fyrir mig en ég tel að ekki séu nægi­lega sterk rök fyrir því að skylda fólk til bólu­setn­inga, líkt og við erum skylduð til að fara í ein­angrun og sótt­kví, bera grímur eða halda fjar­lægð. Bólu­setn­ing er eðl­is­ó­lík öðrum sótt­varn­ar­ráð­stöf­unum því að hún bein­ist ekki að hegðun heldur er efni dælt inn í lík­ama fólks. Þess vegna missa marks sam­lík­ingar við skyldur sem tak­marka frelsi við ýmsar aðstæður þar sem hætta er á að hegðun manns geti valdið sam­borg­ur­unum skaða.

Ein slík sam­lík­ing er lög­bundin notkun bíl­belta sem vernda ein­stak­linga og aðra gegn skaða sem og almanna­hags­muni tengdum álagi á heil­brigð­is­kerf­ið. En mik­ill munur er vita­skuld á fram­kvæmd­inni, auk þess sem bólu­setn­ing er óaft­ur­kræf lækn­is­að­gerð en ekki val um breytni. Notkun bíl­belta er bundin til­tek­inni hegð­un, þ.e. akstri sem felur í sér hættu á að valda skaða, en það að vera óbólu­settur er ekki ávísun á til­tekna hegðun þótt orð­ræðan bendi oft til þess. Til dæmis segir í fyr­ir­sögn Frétta­blaðs­ins 23. des­em­ber s.l.: „Óbólu­sett fólk ber far­ald­ur­inn upp­i“. Slíkar stað­hæf­ingar um óbólu­setta virð­ast ganga út frá óábyrgri hegð­un. Þeir geisli frá sér smiti, óháð breytni. Þetta er ósann­gjörn stimplun á hópi ein­stak­linga sem eflaust haga sér á marg­breyti­legan hátt. Alhæf­ingar út frá hegðun tengdri smitum væru t.d.: „Fólk sem sækir öld­ur­hús knýr áfram far­ald­ur­inn“ eða: „Fólk sem ferð­ast milli landa knýr áfram far­ald­ur­inn“. Lítið gagn er í slíkum stað­hæf­ing­um. Nær­tækara væri að hug­leiða stað­hæf­ingar á borð við: „Van­ræksla okkar gagn­vart þjóð­um, sem hafa ekki aðgang að bólu­efn­um, við­heldur far­aldr­in­um.“ En það er ein­fald­ara að stað­setja vand­ann í lík­ömum ein­stak­linga og ein­skorða ábyrgð­ina við þá en að horfast í augu við alvar­leg sið­ferði­leg úrlausn­ar­efni sem krefj­ast þess að við fórnum ein­hverju sjálf.

Önnur rök fyrir því að taka upp bólu­setn­ing­ar­skyldu mætti kenna við gagn­kvæmni. Óbólu­settir stuðla ekki að almanna­gæðum sem þeir njóta þó góðs af. Þeir eru eins konar „laumu­far­þeg­ar” sem njóta ávinn­ings af fórnum eða fram­lagi ann­arra. Þótt þessi rök séu áleit­in, t.d í til­viki misl­inga sem haldið er í skefjum með hjarð­ó­næmi, eru þau ekki eins aug­ljós í tíma­bundnu ástandi Covid-19 þar sem hjarð­ó­næmið virð­ist ekki nást nema með útbreiddu smiti. Auk þess er það skamm­sýni að sjá almanna­gæði þröngt út frá vel­ferð­ar- eða heilsu­fars­sjón­ar­miði. Þýð­ing­ar­mikil almanna­gæði eru tengd virð­ingu fyrir rétt­indum og mann­helgi sem til­hneig­ing er til að veikja í far­aldri.

Gagn­kvæmn­is­rökin minna á sam­fé­lags­skyldur okkar sem þröng ein­stak­lings­hyggja er blind á. Skyldan í þessu til­viki er fólgin í því að gæta þess að smita ekki aðra með ábyrgum smit­vörn­um. Útfærslan á þess­ari skyldu er aðstæðu­bundin og getur verið hlut­verka­bund­in, t.d. geta verið þung­væg rök fyrir að krefj­ast bólu­setn­ingar þeirra sem ann­ast umönnun fólks sem er veikt fyr­ir. Að gang­ast undir bólu­setn­ingu er ein útfærsla á smit­varna­skyld­unni sem ástæða er til að mæla með af hóf­semi. Það er við­ur­kennd við­miðun í sið­fræði sótt­varna að gætt sé með­al­hófs og skerða frelsi borg­ar­anna ekki meira en nauð­syn ber til í því skyni að hefta útbreiðslu smita. Jafn­framt skuli leit­ast við að laða borg­ar­ana til sam­þykkis og sam­stöðu fremur en beita þving­andi aðgerð­um. Traust vís­inda­leg rök fyrir bólu­setn­ingum eru nauð­syn­leg ástæða til að hvetja til bólu­setn­inga, en þau nægja ekki til að ganga harðar fram. Sið­fræðileg umræða þarf bæði að taka mið af því sem er rétt­mætt með almennum rökum og er gagn­legt til lengri tíma lit­ið. Taka þarf mið af aðstæðum hér og nú, en hefja sig jafn­framt yfir þær með lang­tíma­hags­muni í huga.

Ætla má að and­staða við bólu­setn­ingar og van­traust tengt þeim byggi á a.m.k. tveimur ólíkum ástæð­um. Ég hef þegar nefnt upp­lýs­inga­óreiðu, rang­færslur og orðróm sem felur í sér vill­andi alhæf­ingar út frá dæm­um. Til við­bótar því er rétt að nefna að jað­ar­hópar, svo sem inn­flytj­end­ur, geta haft góðar ástæður til að van­treysta stjórn­völd­um. Ákvarð­anir um að þrengja að þeim geta aukið á rang­læti. Mik­il­vægt er að spyrja um rétt­mætar ástæður van­trausts­ins og vinna út frá því. Báðum þessum ástæðum fyrir and­stöðu við bólu­setn­ingar er gagn­legt að mæta af skiln­ingi. Það stuðlar að trausti, bæði á vís­indum og stjórn­völd­um. En það er gagns­laust að mæta fólki með stimpl­un, ögrunum eða sleggju­dómum eins og nokkuð hefur borið á í umræðu síð­ustu vikna. Það er ámæl­is­verð póli­tísk henti­semi að ala á reiði gagn­vart með­borg­ur­um, líkt og for­seti Frakk­lands gerði nýlega. Orð­ræðan hér­lendis hefur líka sýnt óþol gagn­vart gagn­rýnend­um, en mál­efna­legur ágrein­ingur er lýð­ræð­is­lega mik­il­væg­ur. Efa­semdir um stjórn­valds­að­gerðir styrkja rök­semdir og treysta grunn ákvarð­ana sé þeim mætt með réttum hætti. Það er því ánægju­legt að heyra að íslensk sótt­varn­ar­yf­ir­völd hafa ekki tekið undir áskor­anir um að þrengja að óbólu­settu fólki.

Birtist fyrst á Kjarnanum þann 23. janúar 2022
https://kjarninn.is/skodun/hugleiding-um-bolusetningar-i-heimsfaraldri/