Kári Stefánsson svaraði pistlinum „Skilningsleysi afhjúpað“ með ruddalegri grein sem bar yfirskriftina „Rugludallur“. Það er einkennilegt hversu mikið lögin um vandaða starfshætti í vísindum hafa komið honum úr jafnvægi og hve hátt hann reiðir til höggs vegna lítilsháttar ágreinings um efni sem er þýðingarmikið fyrir íslenskt vísindasamfélag. Þvert á ráðleggingar margra vina minna um að láta grein hans ósvarað ákvað ég að skrifa stutta svargrein. Að svara honum ekki hefði þýtt að Kári væri kominn í þann fámenna flokk hérlendra manna sem er ekki svaraverður. Ég sá ástæðu til að skýra enn betur en áður markmið laganna og tengja þau við málflutning Kára. Ætla mætti að einn fremsti vísindamaður þjóðarinnar sem birt hefur um 700 ritrýndar fræðigreinar geti tekið þátt í málefnalegri rökræðu. Það er hluti af fræðilegum heiðarleika að sýna rökræðuvilja og halda sér við málefnið sem til umræðu er án þess að kalla menn illnefnum. Hér er því svargrein mín sem birtist í Fréttablaðinu í dag:
Í grein sinni í Fréttablaðinu 27. nóvember hélt Kári Stefánsson því fram að eini samnefnari vandaðra vinnubragða í vísindum væri heiðarleiki. Þetta er óneitanlega mikil einföldun, en ef við gerum ráð fyrir að þetta sé rétt þá má draga af því athyglisverðar ályktanir. Ein er sú að ef einhverjir geti talist sérfræðingar í því sem sameinar vísindaleg vinnubrögð þá eru það siðfræðingar, enda eru þeir helstu sérfræðingarnir í þeirri mikilvægu dygð. Í lögum um vönduð vinnubrögð í vísindum er hins vegar gert ráð fyrir því að til þess að meta brot gegn heiðarlegum starfsháttum í vísindum þurfi líka að vera fyrir hendi „þekking á hinum ólíkum rannsóknasviðum, þ.m.t. rannsóknum í atvinnulífinu“ (5. gr.). Því eins og Kári segir réttilega þá er mikilvægt að hafa innsýn í vönduð vinnubrögð á tilteknum sérsviðum. Kári vill líka taka hart á þeim „sem verða uppvísir að alvarlegum óheiðarleika í vísindum“, svo vitnað sé til greinar hans. En ein meginforsenda þess að þetta verði gert með skipulegum og sanngjörnum hætti er að til séu lög af því tagi (Lög um vandaða starfshætti í vísindum) sem Kári hefur fundið allt til foráttu. Lögin mynda umgjörð um málsmeðferð þegar taka þarf á óheiðarlegum starfsháttum, en skilgreina ekki efnisleg viðmið um óheiðarleika. Kári er ósáttur við það og það er eðlilegt ágreiningsefni sem óþarfi er að hafa stóryrði um. Hins vegar er það í anda hugmyndarinnar um menntun vísindamanna, sem Kári tekur undir, að ætla vísindasamfélaginu sjálfu að móta viðmið um vísindalegan óheiðarleika fremur en að setja þau með lögum að ofan. En að öðru leyti sýnist mér sáralítill málefnalegur ágreiningur vera á milli okkar eftir að hann skrifaði þessa grein. Hann gengst nú við flestum þeim atriðum sem mikilvæg eru til að tryggja heiðarleg vinnubrögð í vísindum og til að bregðast við brotum á þeim, þótt hann hafi í fyrri grein ekki þóst hafa skilning á þeim. Það var óheiðarlegt af honum. En kannski er fyrirsögn greinar hans („Rugludallur“) ætluð sem vísbending til lesenda um að taka orð hans ekki alvarlega.